154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[16:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem ég nefndi í ræðunni að við höfum verið skýr með það að Ísraelsríki hafi rétt til að verja sig. Um það gilda líka reglur alþjóðalaga. Ég hef verið mjög skýr með það að alþjóðalögum fylgi ekki bara heilög réttindi, sem ríki eiga að geta treyst á að sé fylgt, heldur sömuleiðis heilagar skyldur. Og við gerum ríkar kröfur á lýðræðisríki að fylgja þeim lögum. Við höfum séð og fengið frásagnir sem eru ekki í samræmi við alþjóðalög, bæði af viðbrögðum, þegar kemur að möguleikum til að koma neyðaraðstoð inni á svæði o.s.frv. Þetta hef ég áður sagt og er sjálfsagt að það komi fram úr þessum stól af þessu tilefni (Forseti hringir.) þegar við fjöllum um þessa skýrslu vegna þess að þegar átök eru (Forseti hringir.) þá verðum við að geta treyst á að sá rammi sem alþjóðalögin eiga að veita — að þeim sé fylgt.